Stofnaði félag og seldi fyrir 6 ma.kr.
Í þessum þætti af Íslenska draumnum er viðmælandinn Jónas Hagan Guðmundsson einn farsælasti frumkvöðull og fjárfestir Íslands. Þetta er í fyrsta sinn sem Jónas kemur fram í hlaðvarpi og deilir einstökum sögum af viðskiptaferlinum ásamt því að segja frá sínum fyrstu skrefum sem frumkvöðull á unga aldri.
Fyrstu skref frumkvöðuls
Frumkvöðullinn gerði svo sannarlega vart við sig snemma hjá Jónasi! Strax í æsku spratt fyrsta viðskiptahugmyndin á höfninni í Húsavík þar sem hann varði tíma með afa sínum að dorga. “Kannski var ég nú alltaf svona smá frumkvöðull í mér alveg frá því ég var lítill” segir Jónas er hann rifjar upp upphafið á ferlinum. Útlendingur á ferli um höfnina óskaði þess að prófa stöngina eitt skipti og gaf dollara fyrir sem kveikti samstundis á perunni hjá Jónasi sem dreif sig heim að útbúa skilti fyrir sinn fyrsta rekstur.
Sem ungur nemi í Verzlunarskóla Íslands að spila golf eitt kvöldið kviknaði næsta hugmynd þar sem Japani kom að tali við Jónas og óskaði eftir aðstoð við að útvega sett. Hann fór síðar á fund með fjórum hótelum og bauð þeim að selja sína þjónustu við að útvega rástíma, sett og skutl til og frá velli. Útsjónarsemi sem átti eftir að reynast Jónasi vel í næstu verkefnum.
Kannski var bara best að vera rekinn
Hann stundaði nám í Bandaríkjunum (Wake Forest University ´92) og síðar Evrópu (INSEAD í Frakklandi ´00). Hann hafði unnið fyrir Austurrískt fyrirtæki áður í leit að kaupa Sorpu og út frá þeirri vitund var leitað til hans aðstoðar við að opna Global Blue á Íslandi. Fyrirtækið sérhæfði sig í endurgreiðslu á virðisaukaskatt fyrir erlenda ferðamenn. Jónas sótti fund með þáverandi fjármálaráðherra til sannfæra hann um ágæti þess að opna þann markað sem á þá var alfarið í höndum ríkisins. Því vegnaði vel og í kjölfarið var honum boðið að taka þátt í að opna Global Blue á Íslandi. ”Margar tilviljanir en kannski var þetta alltaf í eðli mínu að sjá tækifærin og hlaupa af stað. Soldið óttalaus svona ungur þegar maður fór að hitta ráðherra og borgarstjóra en hafði engu að tapa. Versta falli sagði fólkið bara nei”.
Eftir að ganga vel á Íslandi fékk Jónas tækifæri sem sölustjóri Global Blue í Þýskalandi og aðeins rúmu ári síðar var hann orðinn forstjóri í Danmörku. Næsta skref vegferðarinnar var forstjórastaða í Singapore en yfirmanni Jónasar þóknaðist það ekki og stóð í hans vegi. Jónas athugaði sín réttindi og samkeppnisákvæði starfssamningsins með lögfræðing sínum en einhvern veginn komst erindi þess fundar til Global Blue sem svaraði með því að reka Jónas. Hann hélt þó sinni stefnu og stofnaði Iceland Refunds en ferlið var þó ekki án hindrana – hann stóð í stórum laga ágreiningum við fyrrum vinnuveitanda sinn, sem reyndi að koma í veg fyrir stofnun fyrirtækisins á Íslandi. Málið snerist um hvort Ísland tilheyrði Skandinavíu, en niðurstaðan var Jónasi í vil og er nú kennt í lögfræði sem fordæmi.
Jónas veltir þessum tilviljunum fyrir sér og hvernig hefði farið ef hann hefði fengið starfið í Singapore. “Stundum þarftu…. Ef ég hefði fengið góða stöðu áfram, það er oft svo þægilegt þegar þú ert kominn með gott starf. Þarna var ég orðinn faðir, með íbúðarhúsalán og það var kannski ekkert mikill hvati að fara út í mikla áhættu. Miklu þægilegra að vera bara í launuðu starfi og fá sína mánaðarleguútborgun og maður hefði örugglega bara endað sem starfsmaður, sem hefði örugglega verið fínn ferill líka. En ég var ekki kannski svona að leita af þessari miklu áhættu að fara í eigin starfsemi akkúrat á þessum tímapunkti. Röð atvika að ég eiginlega endaði að gera það.” segir Jónas. Ævintýrið með Iceland Refund náði að lokum til 12 landa þegar fyrirtækið (Hét þá Tax Free Worldwide Ltd.) var selt árið 2012 fyrir um sex milljarða króna sem skiptist á milli þáverandi eiganda félagsins.
Í samhengi við brottreksturinn frá Global BLue vitnar Jónas í sögu sem Alan Watts endursagði um kínverska bóndann. Hann lendir í atvikum, góðum og slæmum, en hvorki fagnar né harmar atburðina því ómögulegt sé að vita fyrr en síðar hvort hlutirnir séu raunverulega til bata eða ama.
Endurkoman til Íslands
Skilyrt í sölu Tax Free Worldwide Ltd. var að Jónas sæti í stjórn félagsins í tvö ár en að þeim loknum sneri hann aftur til Íslands eftir 20 ár meira og minna erlendis. “Það er skrýtnasti kaflinn í lífinu mínu. Frá einum degi til annars úr því að fá 150 tölvupósta á dag í núll og bara enginn að hringja. Þá átti ég ekki lengur nein fyrirtæki, ekki lengur í hinu og það var bara ekkert að gera! Þetta var voða notalegt í svona mánuð og svo var mér farið að hundleiðast alveg!” segir hann og hlær.
Eftir heimkomuna stofnaði Jónas Varða Capital, fjárfestingafélag sem hefur komið að ýmsum verkefnum, þar á meðal kaupum á einum turni í Skuggahverfinu, þróun fasteigna í Garðabæ og fleiri stöðum. Eitt af þeim verkefnum sem Jónas hefur mest ástríðu fyrir er umboð fyrir Nespresso á Íslandi og Finnlandi. Á þessum tíma byrjaði Jónas að átta sig betur á hvar áhuginn hans liggur. Hann hafði ekki lengur áhuga á því að vera farþegi í félögum sem hluti af stórum eigendahóp. Jónas nýtur sín best að sjá hlutina gerast og vill gera fáa hluti mjög vel. Sú uppgötvun kristallaðist með aðkomu að myndun Kviku Banka þar sem hann fór með um 7,7% eignarhlut í gegnum Varða Capital. Jónas endaði á að selja allan sinn hlut í Kviku en þessi tækifæri komu til eftir söluna á Tax Free Worldwide Ltd. “Þá átti maður einhvern pening og þá fór maður að gera fullt af hlutum og hélt maður væri ógurlega klár í öllu. Svo komst maður að því að það var nú alls ekki svo. Það eru svona ákveðnar syllur sem manni gengur vel með en maður þarf soldið að finna þær syllur”.
“Þegar maður var ungur gat maður hlaupið allan daginn sjálfur” segir Jónas í tengslum við að vilja fremur byggja upp góð teymi í kringum verkefnin. Hann býr reyndar erlendis í dag og er einna helst bara í samskiptum við stjórnendur þeirra fyrirtækja sem hann á hlut. Reynir að halda sig frá daglegum rekstri en vill enn koma sínum kostum til skila til fyrirtækisins og á þá við Wise og WiseFish. WiseFish er hátæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í hugbúnaðarlausnum fyrir sjávarútveg. „Um 80% af kvóta Íslands fer í gegnum okkar kerfi, og erlendir aðilar líta upp til Íslands í þessum geira“ útskýrir Jónas. „Ég tel að fiskur verði ríkjandi próteingjafi næstu 100 árin“.
Gert gott mót á fasteignamarkaðinum
Flestir sem hafa gert einhver kaup á fasteignum og landi undanfarin 20 ár hafa gert þokkalegt mót hvað varðar eignamyndun. Jónas er þar alls ekki undanskilinn en líkt og fyrr segir keypti hann íbúðir í Skuggahverfinu sem eru á meðal dýrustu og flottustu íbúða landsins. Þar að auki seldi hann einbýlishúsið á Fjölnisvegi 9 árið 2022 fyrir um 690 m.kr. sem ákveðinn miðill mat vera dýrasta einbýlishús sem selt hefur verið á Íslandi. Við söluna festi Jónas svo kaup á einni dýrustu íbúð landsins við Austurhöfn.
Í gegnum hitt fjárfestingarfélagið sitt Adira komst hann yfir land sem er um 1.000 Ha. á Snæfellsnesi þar sem félagið hafði raunverulega aðeins áhuga á virkjun sem stóð á landinu. Með sinni útsjónarsemi sá Jónas þó hugsanleg tækifæri og reisti þar Lúxushýsi sem konungsborið fólk, fremstu viðskiptajöfrar heims og jafnvel stórar Hollywood stjörnur hafa leigt á dvöl sinni hér á landi. Jónas gefur þó ekkert upp í þeim efnum enda bundinn ströngum trúnaði varðandi allt slíkt.
Fjárfestingar félagið Varða Capital er ekki undanskilið í þessum efnum og er raunar síðasta verk þess félags að ljúka á árinu (2025) þegar síðustu íbúðirnar í nýju Smárahverfi verða seldar. Félagið fjármagnaði, byggði og seldi um 700 íbúðir í grennd við Smáralind. Jónas telur að félaginu verði líklega slitið upp að því loknu.
Tækifæri leiða af sér fleiri tækifæri
Þátturinn er hlaðinn af innsýn í viðskiptalíf og innblæstri fyrir frumkvöðla. Jónas er fyrirmynd þeirra sem vilja nýta ástríðu sína til að skapa sér einstakan feril. Jónas snertir mun betur á ofangreindum atriðum í þættinum sjálfum ásamt því að snerta á öðrum fjárfestingum sínum eins Bestseller og fleiri verkefni hjá Adira. Aðdáun Jónasar á íslensku frumkvöðlaumhverfi er bersýnileg er hann segir. „Þegar við skoðum höfðatölu, er magnað hvað við eigum marga frábæra frumkvöðla og fyrirtæki. Þetta agaleysi og sköpunarkraftur íslenskra frumkvöðla hefur skapað fyrirtæki sem stæða sig vel á heimsvísu“.
Jónas undirstrikar að mikilvægt sé að grípa tækifæri þegar þau koma upp. „Tækifæri leiða af sér fleiri tækifæri. Það er lykillinn – að vera óhræddur við að byrja, jafnvel þó þú hafir ekki allt á hreinu.“ Þessi rauði þráður hefur fylgt honum alla tíð og hjálpað honum að ná ótrúlegum árangri.