HomeÞættirÞættir45 – Ingvi Þór Georgsson

45 – Ingvi Þór Georgsson

16 Desember, 2025

Í þessum þætti af Íslenska Draumnum ræðir Sigurður við Ingva Þór Georgsson, mann sem hefur farið óhefðbundna leið í atvinnulífinu og byggt upp ótrúlega fjölbreyttan feril. Í þættinum opnar Ingvi á fyrstu skrefum sínum, ævintýrunum í kringum Aflamiðlun, verkefnunum sem spruttu út frá því og þeirri þrautseigju sem hefur haldið honum áfram, verkefni eftir verkefni: borðspilaútgáfu, Alfreð, Pardus, hlaðvarpsrekstur Sýnar, Pyngjan, fyrirtækjasala, hugbúnaðarrekstur og jafnvel þjóðbúningaframleiðslu fyrir börn.

Þrátt fyrir breiddina er rauði þráðurinn skýr: Ingvi býr til hluti. Hann framkvæmir hugmyndir. Hann fer all-in, lærir af mistökum og snýr sér að næsta. Það er þessi einstöku sköpunarhvöt sem hefur mótað hann og sem endurspeglast í öllum verkefnum hans.

Upphafið: Aflamiðlun verður til

Saga Ingva í viðskiptum hefst hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), þar sem hann starfaði á sínum fyrstu starfsárum eftir að hafa lokið námi og skrifað meistararitgerð um sjávarútveg. Innan SFS var rekin þjónusta sem miðlaði aflaviðskiptum, bátaflutningum og kvóta milli aðila. Þessi þjónusta, Aflamiðlun, þótti umdeild innan samtakanna þar sem hún var í beinni samkeppni við einkaaðila og því illa séð.

Að lokum stóð valið að annað hvort að leggja þessa starfsemi niður eða að láta einhvern taka hana yfir. Eins og Ingvi segir:

,,Ég var eiginlega bara réttur maður, á réttum stað, á réttum tíma.”

Ingvi fékk Aflamiðlun í hendurnar sem lítinn, tilbúinn rekstur með umgjörð, viðskiptabasa og um tveggja milljóna króna ársveltu en með miklu meiri möguleika.

Þarna kviknaði fyrsta alvöru tækifæri hans til að standa á eigin fótum. Hann tók við öllum símtölum, þjónustaði sjómenn og útgerðarmenn við hvert tækifæri og smám saman fór reksturinn og traust gagnvart honum innan geirans að vaxa. 

,,Þegar ég byrjaði vorum við átta í þessum bransa. Þrír fóru undir á fyrstu þremur árum, á meðan ég hélt áfram að vaxa.” segir Ingvi.

Aflamiðlun varð grunnurinn að sjálfstæði hans og sú stoð sem bar hann þegar næstu verkefni tóku við.

Bókun og “Lortur í lauginni”

Aflamiðlun gekk vel en ekki nógu vel á þessum tíma til að verða fullur starfsferill. Reksturinn var of lítill til að hann gæti sinnt honum einum og sér, og á sama tíma var Ingvi orðinn þreyttur á starfi sínu hjá SFS. Þjónustan sem hann sinnti þar hafði verið umdeild innan samtakanna, og hann fann sjálfur að hann var tilbúinn fyrir nýtt umhverfi og aðra tegund verkefna.

Á þessum tíma hafði gamall vinur samband og spurði hvort hann vildi ekki kíkja yfir til Bókunar, lítils sprotafyrirtækis í ferðaþjónustu sem var rétt að taka við sér. Ingvi hafði í fyrstu enga sérstaka trú á hugmyndinni, vissi lítið um ferðaþjónustutækni og sá ekki strax hversu stórt það gæti orðið. En eftir fund með Hjalta Baldurssyni var hann seldur og fór beint í SFS til að segja upp.

Bókun óx hratt og var síðar selt til TripAdvisor, sem markaði stór tímamót í íslenskri sprotasögu. En eftir kaupin breyttist menningin. Bandarískur rekstur með meiri ferlum og þyngri stjórnun tók við og Ingvi, sem lifði fyrir hraða og sköpun, fann fljótt að hann þyrfti nýtt umhverfi. 

Samhliða þessum breytingum var Ingvi að vinna að sínu fyrsta eigin verkefni, borðspil. Eftir sumarbústaðarferð með vinum hugsaði hann að það hlyti að vera til betra spil en ,,Varúlfur” fyrir vinahópa. Á heimleiðinni stoppuðu þeir í sundlauginni á Borgarnesi, þar sem sundlaugargestur hafði kúkað í laugina og þar kviknaði upp hugmynd hjá Ingva: “Lortur í lauginni”.

Þetta markar ákveðin tímamót í frumkvöðlaferli Ingva þar sem þetta var fyrsta verkefnið sem hann þurfti að gera og læra hvert atriði við framleiðslu á vöru. Hann samdi reglurnar, þurfti að finna og semja við birgja, hönnuði, halda prufukvöld og allt sem þurfti, til þess að gera fullbúna vöru.

,,Ég hafði heyrt að það væri gott að gefa út spil eða bækur um jólin. Ég hugsaði að spil gæti gefið mér fuck you cash-ið sem ég þurfti til þess að geta gengið frá Bókun” segir Ingvi.

Það gekk eftir og hann kvaddi Bókun með mikilli reynslu í farteskinu, bæði úr sprotaheiminum og frá sínu fyrsta eigin verkefni.

Framkvæmdarstjóri Alfreð og meðstofnandi Pardus

Á þessum tímapunkti var traust og rekstur Aflamiðlunnar kominn á góðan stað og loks gat Ingvi farið sína eigin leið. En þá hringdi Halldór Friðrik, meðstofnandi Alfreð og bauð Ingva í kaffi eftir að Ingvi reyndi að selja honum borðspil í jólagjöf til starfsmanna Alfreðs og Stokks.  Þeir höfðu áður unnið saman í kringum stjórnarkjör Halldórs í stjórn Frjáls Lífeyrissjóðsins og ættaðir að austan og sambandið því gott. Halldór bauð Ingva starf í viðskiptaþróun fyrir Alfreð sem átti að vera 3 mánaða verkefni. En stofnendur Alfreð vildu halda honum og áður en hann vissi af varð hann markaðsstjóri Alfreðs og svo framkvæmdarstjóri fyrirtækisins. Hann lét þá þó vita að hann tæki starfinu tímabundið þar til þeir myndu finna aðra manneskju í stöðuna.

Á svipuðum tíma og framkvæmdarstjóra staðan kom upp hafði Auðun Bragi samband og stakk upp á að þeir byggju saman til íslenska Patreon. Auðun hafði séð um markaðsmálin fyrir borðspilið og þeir unnið vel saman. Um þetta leyti vildi Ingvi frekar snúa sér frá bæði Alfreð og öðrum verkefnum svo hann gæti einbeitt sér að Aflamiðlun. En honum þótti hugmyndin góð, vildi fjármagna en að Auðun myndi sjá um reksturinn. Verkefnið fékk nafnið Pardus og fór í loftið rúmlega mánuði síðar og varð instant success

,,Hlaðvörp voru svona að byrja að vaxa á þessum tíma og þegar við sáum hversu vel þetta fór af stað þá horfðum við á hvorn annan: we are on to something.” segir Ingvi.

Pardus er áskriftarvettvangur fyrir hlaðvörp þar sem þau geta búið til sitt eigið lokað svæði, sett hvaða efni þar inn sem þau vilja og rukkað fyrir aðgengi að efninu. Á þessum tíma var aðeins eitt áskriftarhlaðvarp utan Pardus með áskrift á Íslandi. 

Þegar þeir sjá hversu vel veitan fór af stað þá byrjuðu þeir að hafa samband við fleiri hlaðvörp til þess að byrja með áskrift á Pardus. Ingvi hafði verið í fjarþjálfun hjá Agli Einarssyni úr þríeykinu FM95BLÖ ásamt Auðuni Blöndal og Steinþóri Hróar Steinþórssyni og lagði til við Egil, að þeir myndu búa til hlaðvarp samhliða útvarpsþættinum þeirra FM95BLÖ, vinsælasta útvarpsþætti landsins. Agli leyst strax vel á og hafði samband við Auðun Braga fyrir frekari upplýsingar um möguleikana sem hann gæti svo borið undir restina af genginu. Þeim leyst vel á og við tók um hálft ár af samskiptum við Sýn vegna þess að þeir eru starfsmenn þar.

Í þættinum fer Ingvi yfir hvernig TAL hlaðvarpsheimur Sýnar og Blökastið varð til, hvernig samstarfið var og að lokum hvernig stóð á kaupum Sýnar á fyrirtækinu Pardus.

Að stökkva sjálfur á vagninn – hvernig Pyngjan varð til

Eftir að hafa unnið náið með stærstu hlaðvörpum landsins, mótað áskriftarveitu fyrir þau og séð bransann taka stakkaskiptum á örfáum mánuðum, fann Ingvi að hann langaði sjálfur að stíga inn á sviðið. Hann hafði aldrei ætlað sér að verða „hlaðvarpsmaður“, en eftir Pardus, Tal og samstarfið við vinsælustu þætti landsins fór að kvikna hjá honum löngun til að búa til sitt eigið efni.

Á sama tíma hafði RSK opnað fyrir ársreikninga og Ingvi fann fljótt að fátt væri skemmtilegra en að fletta upp fyrirtækjum og rýna í reksturinn. Hann hafði nýlega ráðið Arnari Þór Ólafssyni í Aflamiðlun og komst að því að Arnar hafði nákvæmlega sama áhugann: að ræða rekstur, ársreikninga og fjármál á mannamáli.

Þeir tveir sátu yfir fyrirtækjagögnum og fundu að þetta væri efni sem þeir gætu gert bæði áhugavert og aðgengilegt fyrir almenning. Á endanum ákváðu þeir að prófa – búa til hlaðvarp þar sem þeir færu yfir íslensk fyrirtæki, rekstur, tölur og allt það sem fæstir tala um opinberlega. Markmiðið var einfalt: ef 1% þjóðarinnar myndi hlusta, um 3–4 þúsund manns, væri það stórsigur.

Þannig varð Pyngjan til – þáttur sem átti eftir að verða eitt vinsælasta business- og grínhlaðvarp landsins.

Pyngjan fór hratt á flug. Samfélagið í kringum þáttinn óx á mettíma, hlustendur tóku virkan þátt í umræðum og þátturinn varð vettvangur fyrir bæði fræðslu og húmor. Vinsældirnar leiddu til nýrra tækifæra: samstarfa, styrktaraðila, aukaefnis og lifandi viðburða, auk þess sem Pyngjan varð sífellt stærri hluti af íslenskri viðskiptaumræðu.

Eftir langa törn, mikinn hraða og sífellt fleiri verkefni ákvað Ingvi þó að láta staðar numið og snúa sér aftur að sínum eigin rekstri. Pyngjan stendur eftir sem tímabil sem markaði hann djúpt – verkefni sem sýndi að hægt er að gera fjármál skemmtileg og ná til stórs hóps með réttu formi, réttu efni og réttu fólki.

Fyrirtækjasala, bátar, barnabúningurinn og allt hitt

Það er nánast ómögulegt að setja feril Ingva í beina tímalínu. Hjá flestum færi maður frá einu verkefni til þess næsta en hjá honum gerist allt samhliða. Á meðan hann byggði upp Aflamiðlun sá hann um sölu fyrirtækja og aflaheimilda fyrir eigendur um allt land, verkefni sem krafðist bæði tæknilegs skilnings og seiglu. Hann þróaði hugbúnaðarlausnir fyrir ólíka bransa, stýrði eigin sprotum, tók þátt í rekstri hlaðvarpsveitu og vann að fjölmörgum öðrum verkefnum sem birtust oftar en ekki óvænt og spruttu af hreinni sköpunarþörf.

Á sama tíma ákvað hann að búa til ódýra og aðgengilega útgáfu af íslenska þjóðbúningnum fyrir börn – hugmynd sem hafði kraumað í honum í fjögur ár og varð að veruleika á innan við mánuði. Búningurinn sló í gegn og opnaði umræðu um hefðir, þjóðerni og aðgengi sem Ingvi tók af mikilli yfirvegun, þó stór hluti internetsins hefði haft skoðun á málinu.

Allt þetta er dæmigert fyrir Ingva. Hann sér tækifæri, hann framkvæmir og hann lætur útkomuna standa fyrir sínu, hvort sem það er borðspil, hlaðvarp, búningur, hugbúnaður eða fyrirtækjasala.

Saga Ingva Þórs Georgssonar er saga manns sem hefur ítrekað treyst á eigin hugmyndir og eigin hendur. Hann hefur byggt upp fyrirtæki, skapað vörur, tekið áhættu og lært hraðar en flestir myndu treysta sér til. Hann drífur sig áfram með þeirri sannfæringu að mistök séu hluti af ferlinu, ekki ástæða til að hætta – og að það sé alltaf skynsamlegra að prófa, klúðra og reyna aftur, en að gera ekkert.

Í þættinum rifjar hann upp hvernig hvert verkefni leiddi af sér það næsta, oft án þess að hann hafi séð heildarmyndina fyrirfram. En þegar litið er yfir feril hans er það ljóst: þetta er saga manns sem elskar að skapa. Maður sem framkvæmir frekar en að hugsa hlutina í hel. Maður sem treystir eigin dómgreind, eigin vinnu og eigin hugmyndum.

Og þetta er aðeins brot af því sem rædd var í þættinum. Ef þú hefur áhuga á frumkvöðlastarfi, hlaðvarpsrekstri, sjávarútvegi, sprotum, fyrirtækjasölu eða því hvernig maður byggir eigið líf í kringum hugmyndir, þá máttu ekki missa af þessum þætti af Íslenska Draumnum.