HomeÞættirÞættir44 – Helga Sigrún Hermannsdóttir

44 – Helga Sigrún Hermannsdóttir

Í þessum þætti af Íslenska Draumnum er viðmælandinn Helga Sigrún Hermannsdóttir, meðstofnandi og yfirmaður vísinda og vöruþróunar hjá Dottir Skin, hún hefur vakið athygli fyrir einstaka nálgun sína á snyrtivörur, þar sem sameinast djúp þekking á efnafræði, eigin reynsla af húðvandamálum og vilji til að skapa raunverulegar lausnir. Hún hefur alla tíð verið heilluð af húð, innihaldsefnum og þeirri spurningu hvað virkar í raun. Vegferð hennar sem frumkvöðull hófst ekki með fjárfestafundi eða viðskiptaáætlun, heldur með forvitni, einlægni og samfélagsmiðlum.

Frá lyfjabransanum að hagnýtri efnafræði

Helga hóf feril sinn í lyfjaiðnaðinum og segir sjálf að hún hafi í raun aldrei gert neitt annað en að vinna með húð og snyrtivörur. Hún hefur tileinkað líf sitt þessum geira löngu áður en hugmyndin að Dóttir Skin varð til. Árið 2018 hóf hún að miðla efnafræðilegri þekkingu sinni á samfélagsmiðlum, þar sem hún fræddi fólk um innihaldsefni, virkni, verðlagningu og eigin reynslu af húðvandamálum eins og exem og bólum.

Eftir grunnnám í efnaverkfræði lagði hún stund á meistaranám í hagnýtri lyfjafræði í Kanada, með sérstaka áherslu á lyfjafræðilega efnafræði og þróun varna gegn sólarljósi. Þar tengdi hún saman þekkingu úr námi og eigin reynslu með það markmið að þróa húðvörur sem virka ekki bara í rannsóknarskýrslum, heldur raunverulega á húð fólks.

Að tala draumana upphátt

Eins og áður kom fram, þá byrjaði Helga að miðla þekkingu sinni á samfélagsmiðlum. Fyrst og fremst um efnafræði snyrtivara og eigin húðvandamál. Þar náði hún fljótt athygli með skýrum, fræðandi og heiðarlegum efni. En það sem virðist lítið í augnablikinu getur haft afgerandi áhrif því þegar hún svaraði fylgjanda sem hafði spurt í spurningaboxi á Instagram ,,Hvar sérðu þig fyrir þér eftir fimm ár?” eftir með orðunum: „Ég ætla að eiga stærsta snyrtivörumerki á Íslandi“, þá hafði hún óafvitandi sáð mikilvægu fræi.

„Maður á að tala um draumana sína upphátt. Þú bara sáir fræjum með því að tala um hlutina.“ segir Helga.

Það var nákvæmlega það sem hún gerði. Hún lýsti framtíðarsýn sinni opinberlega og hélt áfram að miðla þekkingu og sýn, og draumurinn fór að lifna við.

Frá DM í draumateymi

Ekki löngu eftir að Helga hafði sett yfirlýsinguna í story án þess að vera komin með vörulínu, viðskiptaáætlun eða teymi, fékk hún skilaboð á Instagram:
„Hefðir þú áhuga á að stýra vöruþróunarferlinu með okkur? Við erum að pæla hvort það væri kúl að búa til snyrtivörumerki.“

Þetta voru fyrstu skrefin að stofnun Dóttir Skin. Meðeigendur hennar komu inn í gegnum samfélagsmiðla, ekki með stórum fjárfestafundi heldur einföldum en markvissum tengingum sem urðu til út frá einlægri tjáningu og brennandi áhuga.

„Ég bara: Geðveikt!“, segir Helga hlæjandi.


Fræin sem hún hafði sáð með rödd sinni og sýn á samfélagsmiðlum fóru að spíra og innan nokkurra mánaða var grunnur að fyrirtækinu lagður.

Fyrsta varan: Sólarvörn sem sameinar ástríðu og þekkingu

Fyrsta varan sem Dottir Skin þróaði var sólarvörn, ekki vegna þess að það væri auðveldast, heldur vegna þess að það var þar sem eldmóður Helgu kviknaði. Ástæðan var persónuleg, frumubreytingar í fæðingarbletti á fætinum urðu til þess að hún fór að huga alvarlega að húðvernd og sérstaklega sólarvörnum.

Sem efnafræðingur vissi hún strax að þetta yrði flókið verkefni. Sólarvarnarvísindi eru marglaga og krefjast djúprar sérhæfingar. Teymið tók strax ákvörðun um að einblína á steinefnasólarvörn, frekar en þá kemísku sem algengari eru á markaði. Þó þær séu flóknari í framleiðslu og meðhöndlun, eru þær oftar betur þolanlegar fyrir viðkvæma húð, sérstaklega fyrir börn og fólk með rósroða eða exem.

Ferlið var hvorki einfalt né ódýrt. Þróunin tók þrjú ár og hófst í Bandaríkjunum þar sem varan var fyrst sett á markað sumarið 2024. Helga segir að það hafi verið mikið áfall að átta sig á hve flókið regluverk fylgir því að þróa og skrá sólarvörn  „þú þarft að fara í gegnum ofboðslega margar klínískar prófanir“ og það hafi verið augljóst af hverju ekkert fyrirtæki á Íslandi hefur lagt í að búa slíka vöru til frá grunni.

Þó hún viðurkenni að það hefði verið „skynsamlegra að byrja á rakakremi“ til að einfalda ferlið og koma tekjum fyrr inn, þá sér hún ekki eftir ákvörðuninni. Sólarvarnir eru hennar sérsvið og vöruþróunin var ekki bara faglegt verkefni heldur djúpstæð ástríða sem markaði upphafið að Dottir Skin.

Meðvituð um tilgang og stefnu

Frá upphafi hefur Helga verið meðvituð um af hverju hún er að gera hlutina. Hún nálgast efnið með forvitni og tilgangi, að skilja, miðla og skapa eitthvað sem skiptir máli. Hún nýtir sér þekkinguna úr efnafræðinni til að búa til raunverulegar lausnir, sem eru bæði vísindalega traustar og aðgengilegar fyrir fólk með fjölbreyttar húðgerðir og þarfir.

En leiðin frá hugmynd að raunveruleika er ekki bein. Helga lýsir því hvernig frumkvöðlalífið krefst þess að maður þoli óvissu og geti tekið ákvarðanir í aðstæðum sem eru óþægilegar eða óljósar. Að ganga inn í eitthvað nýtt án þess að vita hvað bíður og treysta sjálfri sér til að mæta því sem kemur. 

„Það þarf sjúklega mikið sjálfstraust til að fara út í hlutina og treysta því að maður geti tekið við því sem koma skal,“ segir hún.

Að nýta ADHD sem frumkvöðlakraft

Helga talar opinskátt um sína miklu hvatvísi og ADHD sem bæði áskorun og ofurkraft. Hún segist oft framkvæma áður en hún hugsar hlutina í gegn og það hafi einmitt hjálpað henni að taka stór skref í viðskiptum. Hún hafi í raun aldrei efast um að hún ætlaði sér að stofna sitt eigið fyrirtæki, og horfi nú á Dottir Skin sem eðlilega afleiðingu af þeirri vegferð sem hófst á samfélagsmiðlum og var knúin áfram af eigin vandamálum og forvitni.

Greinin fer aðeins yfir brot úr einlægu og innsýnarríku viðtali þáttarins. Þeir sem hafa áhuga á frumkvöðlastarfi, vöruþróun, vísindum eða vilja kynnast raunverulegu ferðalagi á bak við íslenskt snyrtivörumerki ættu ekki að láta þennan þátt framhjá sér fara.