HomeÞættirÞættir43 – Árni Jón Pálsson

43 – Árni Jón Pálsson

Í þessum þætti af Íslenska Draumnum tekur Sigurður á móti Árna Jóni Pálssyni, meðstofnanda og fjárfestingastjóra Alfa Framtaks, sem deilir einlægri og heillandi sögu sinni frá fyrstu skrefum í viðskiptalífinu yfir í það að leiða einn áhugaverðasta og öflugasta framtakssjóð landsins í dag.

Fyrstu skrefin

Áhugi Árna á rekstri kviknaði óvenju snemma. Þegar hann var aðeins 11 ára gamall hóf hann að spyrja afa sinn, sem starfaði í útgerð, spjörunum úr um viðskipti. Þessar samræður vöktu hjá honum djúpan áhuga á því hvernig fyrirtæki virka, ekki endilega að reka eitt sjálfur, heldur skilja hvernig rekstur og fjármálakerfi fléttast saman.

Eitt fyrsta viðskiptaævintýrið var að selja brennda útgáfu af Tvíhöfða í grunnskólanum. Árið var 2002 og Tvíhöfði hafði gefið út disk sem kostaði 2.500 kr., sem á þeim tíma voru miklir peningar. Árni var nýkominn með tölvu á heimilið og áttaði hann sig á að hann gat afritað diskinn á 50 kr., og selt til samnemanda sinna. Þessu fylgdi mikill lærdómur, óformleg frumraun í framleiðslu, verðlagningu og dreifingu sem gaf honum fyrstu innsýn í hvernig hráefni og vinna umbreytist í seljanlega vöru.

,, Það sem heillaði mig var hvernig er hægt að breyta aðföngum og vinnuafli í vöru og selja hana áfram.” Segir Árni Jón.

Ég vildi mennta mig til þess að vera undirbúinn

Árni Jón útskrifaðist úr Menntaskólanum í Kópavogi á þremur árum og fór rakleiðis í viðskiptafræði við HR. Honum þótti hann enn vanta betri skilning á fjármálaumhverfinu og bætti við sig námi í fjármálaverkfræði. Þar lærði hann verklega aðferðarfræði og hvernig á að leysa flókin verkefni. 

„Þegar ég sá sum verkefni í náminu og þá leið mér stundum eins og þau væru óyfirstíganleg. En verkfræðin kenndi mér að leysa nærri hvaða verkefni sem er.“ segir Árni Jón. 

„Hvers vegna viltu hitta mig?“

Samband Árna Jóns og Gunnars, meðstofnanda Alfa Framtaks, hófst á forvitnilegum nótum. Gunnar bauð honum í hádegisverð, þó þeir þekktust ekki mikið. Árni vill hafa vaðið fyrir neðan sig og þegar hann spyr Gunnar hvers vegna hann vill hittast, þá var svarið að hann hefði áhuga á að kynnast ungu fólki í fjármálageiranum.

 „Ég var ekki viss um tilganginn, en eftir 30 mínútur fattaði ég að þetta var dulbúið atvinnuviðtal,“ segir Árni brosandi. Gunnar leitaði að starfsmanni með metnað og sá það í Árna Jóni.

Þó Árni Jón hafi fengið atvinnutilboð frá stærsta eignastýringarfyrirtæki landsins ákvað hann að slá til og ganga til liðs við Icora Partners, fremur óþekkt fyrirtæki í fyrirtækjaráðgjöf. Árni Jón segir að þetta hafi verið mjög erfið ákvörðun því hann var í raun með atvinnutilboð í draumastarfið en að þarna hafi frumkvöðullinn í honum tekið völd. Hann var ungur og hafði nægan tíma til að ná markmiðinu, að verða fjárfestingastjóri í framtakssjóð. Hjá Icora fékk Árni Jón strax sæti við borðið og traust til að taka þátt í verkefnum frá fyrsta degi. 

„Vinir mínir sögðu að ég hefði farið í “Íkorna partners” í staðinn fyrir draumastarfið mitt,“ segir hann hlæjandi.

Fyrsti framtakssjóðurinn – og verstu mánuðir lífsins

Hjá Icora unnu þeir að mörgum stórum og skemmtilegum verkefnum, í sölu fyrirtækja og fyrirtækjaráðgjöf. Fjölbreytt verkefni en Árni Jón var alltaf með viljann til þess að stýra framtakssjóði. Árið 2016 ákváðu þeir félagar að hætta í fyrirtækjaráðgjöf og að safna í sjóð sem þeir myndu stýra. Hugmyndin var einföld, að fjárfesta í fyrirtækjum þar sem þeir væru sjálfir með „skin in the game“ og gætu haft bein áhrif. Þeir vildu vera sjálfstæðir og með áherslu á að fá einkafjárfesta að sjóðnum í mun meiri mæli en áður hafði tíðkast á Íslandi.

Strax í upphafi fara þeir í samstarf með stórum banka en fjáröflunin gekk hægt. Bankinn slítur svo samstarfinu nærri fyrirvaralaust og fyrirtækið tekjulaust, vegna þess að þeir höfðu hætt í fyrirtækjaráðgjöfinni. Árni Jón var kominn með tvö ung börn, nýbúinn að kaupa sér íbúð og farinn að finna fyrir óvissunni og var tekjulaus.

„Ég segi stundum að 2017 hafi verið bæði versta og besta ár lífs míns,“ segir hann. „Við vorum komnir að vegg og þá þurfti bara að fara all-in.“

Duga eða drepast

Reksturinn var kominn á þann stað að það var að duga eða drepast og ræddu þeir félagar hvort skynsamlegast væri að láta leiðir skilja. Þeir ákveða hins vegar þarna sumarið 2017 að þeir ætla að gefa verkefninu tvo mánuði í viðbót og leggja allt í sölurnar. Í ágúst mánuði bóka þeir fundi með öllum fjárfestum og í nóvember, eftir mikla vinnu upp og niður, þá hafðist þetta, þeir loka sínum fyrsta framtakssjóði í 5 milljarða áskriftarloforðum. Á leiðinni voru mörg gatnamót þar sem þetta hefði allt geta farið úrskeiðis, en þökk sé þrautseigju þeirra náðist allt að spilast með þeim. 

Þarna segir Árni að þrautseigja sé eitt það mikilvægasta í viðskiptum og að á ákveðnum tímamótum, verður þú bara að gefa þig allann í verkefnin, sama þótt það gangi eða ekki, þá getur þú allavega sagt að þú hafir lagt þig allann fram.  Vorið árið 2018 náðu þeir að stækka sjóðinn í 7 milljarða sem breytti rekstrargrundvelli fyrirtækisins til hins góðs.

Framtakssjóðir: meira en bara peningar

Í þættinum fer Árni Jón yfir hvernig framtakssjóðir virka, hvernig þeir nálgast samstarf við fyrirtæki og stjórnendur og hvers konar verkefni þeir vilja fjárfesta í. Hann ræðir áskoranir á leiðinni, hvers konar tengsl við fjárfesta þurfa að byggjast upp og hvernig Alfa Framtak hefur þróast síðan fyrsta sjóðurinn hóf störf. 

Ef þú hefur áhuga á frumkvöðlastarfi, fjárfestingum, framtakssjóðum eða bara hvernig fjármálakerfið virkar á bakvið tjöldin, þá máttu ekki missa af þessum þætti. Árni Jón fer djúpt í hvernig á að kynna hugmynd, hvernig framtakssjóðir hugsa, hvað frumkvöðlar þurfa að passa sig á og hvernig traust, hugrekki og þrautseigja skera úr um árangur.