Úr fatabúð í veitingastað í næturklúbb
Í þessu þætti af Íslenska Draumnum, hlaðvarpsþætti í stjórn Sigurðar Sindra “Deluxe” Magnússonar, er viðmælandinn Sindri Snær Jensson. Sindri hefur gert ótrúlega gott mót á íslenskum markaði og stofnað fjöldann allan af fyrirtækjum sem flestir íslendingar hafa í það minnsta einu sinni á einhverjum tímapunkti stundað viðskipti við. Í viðtalinu eru ýmsir gullmolar sem auðvelt er að draga lærdóm af og sækja innblástur fyrir eigin verkefni af framúrskarandi ferli Sindra sem hann fer vel yfir í þættinum.
Upphafið og fyrsta fyrirtækið
Sindri hefur m.a. stofnað Húrra Reykjavík, Auto skemmtistað, Flatey pizza og Yuzu Burgers, en hann byrjaði sinn feril í tískubransanum þar sem hann vann í fataverslun í menntaskóla. “Þar kviknar í raun og veru áhuginn á fyrsta lagi tísku og fatnaði og ekki síður svo sölumennsku og þessu mannlega eðli í viðskiptum” segir Sindri. Hann vann 8 ára fyrir NTC á Íslandi sem á mikið af vinsælustu fatabúðum landsins en í kjölfarið fluttist Sindri til Kaupmannahafnar þar sem hann hélt áfram á sömu braut og uppgötvaði í rauninni gat á íslenskum fatamarkaði.
“2014 stofna ég og besti vinur minn Jón Davíð Húrra Reykjavík með það að markmiði að bjóða sérstaklega karlmönnum á Íslandi einhvern nýjan valkost sem var svona frekar mikið innblásinn af skandinavískri tísku, ekki síst danskri tísku. Því á þessum tíma þegar maður ætlaði að fara á skemmtistað á Íslandi var ákveðið dress code. Þarft að vera í svörtum skóm, í blazer jakka, ekki með derhúfu ekki í hettupeysu, en í Danmörku var þetta allt svona afslappaðara og þessi sneaker tíska búin að ryðja sér til rúms”. Sindri segir þá hafa opnað Húrra Reykjavík með þessa afslöppuðu nálgun fyrir karlmenn þar sem ekki var verið að selja þér spariföt eða einhver kósýföt. Fremur að selja vönduð og flott föt sem virka alla daga vikunnar. 20 ár í tískubransanum.
Sindri segir við dæmum fólk með augunum hvort sem okkur líkar það betur eða verr og flestir vilja líta vel út þar sem föt spila stóran þátt. Þó ýmsir kunni að líta á tísku sem ákveðinn hégóma eða hræsni kýs Sindri að horfa á tískuna sem ákveðna valdeflingu. Geta farið í verslun og keypt eitthvað sem lætur þér raunverulega líða betur með sjálfan þig sem getur leitt af sér betri tækifæri hvort sem um ræðir atvinnuleit, makaleit eða almennri framkomu þar sem sjálfstraust spilar stórt hlutverk. Í verslunum Húrra, ólíkt mörgum öðrum verslunum, hengur aðeins eitt eintak af hverri flík í versluninni. Hver viðskiptavinur getur því nánast gengið að því að fá þjónustu og aðstoð við að finna réttu stærðina og persónulega aðstoð til að finna flíkina sem lætur þeim líða vel.
Siggi spyr sérstaklega í tengslum við þessa nálgun að bjóða persónulega þjónustu hvernig ferlið sé við þjálfun á starfsfólki. “Ég lít stundum á þetta eins og íþróttir. Ég náttúrulega kem úr fótbolta og verið í fótbolta alla mína ævi. Við lítum svo á að við séum þjálfarar eða managers, svo erum við með leikmenn. Við þjálfum leikmennina og svo er planið að leikmennirnir fara að þjálfa aðra leikmenn. Þetta er svosem ekkert sem ég fann upp á heldur eru bara fræði sem er í allskonar bókum eins og eru fyrir aftan þig. Að þú búir til einhver kúltur á vinnustaðnum”.
Enginn one trick pony
Líkt og fyrr segir hefur Sindri ásamt sínum meðeigendum náð framúrskarandi árangri með Húrra Reykjavík en lýsir því að það viðskiptamódel sé á undanhaldi. Stærsta rekstrareining sem Sindri kemur að er Reykjavík Napoli ehf. sem heldur utan um rekstur Flatey Pizza, Neo Pizza og Gaeta Gelato. Sindi talar um að allt hafi farið í mark með opnun Flatey Pizza en fyrsti staðurinn opnaði 2017 á Granda. “Ótrúlegt fyrirtæki. Einhvern veginn að útskýra hvað gerðist, við hittum bara á einhvern sweet spot þegar við opnum 2017. Þessi tegund af pizzum, ég veit það ekki staðsetningin, verðlagningin, gæðin, þjónustan hitti allt í mark og það var eiginlega bara pakkað hjá okkur í marga mánuði” segir Sindri. “Fyrirtækið var orðið skuldlaust um áramótin sama ár, greitt niður allan stofnkostnað á einhverjum 3-4 mánuðum” sem verður að teljast frambærilegur árangur.
Næst kom Sindri að opnun á Yuzu Burgers árið 2019 sem hefur heldur betur gert frábæra hluti og er í dag þeirra næst stærsta rekstrareining á eftir Reykjavík Napoli ehf. Þeir viðskiptafélagar létu ekki gott heita þar heldur opnuðu vinsælasta skemmtistað landsins Auto árið 2021 sem hefur haldið þeim óformlega titli nánast óslitið síðan. Hvernig æxlast hlutirnir þannig að einhver komi að opnun á svo fjölbreyttum stöðum í svo ólíkum rekstri, fataverslun í veitingabransann og þaðan í næturklúbb veltir Siggi fyrir sér. “Það er ekkert eitt svar við þessu. Svona þegar maður horfir til baka þá einhvern veginn gerðist þetta bara. En ég held þetta sé einhver svona þrá og kraftur, allavega í mér og Jóni, af því við komum náttúrulega að stofnun allra þessa fyrirtækja. Einhver þrá og kraftur til að gera eitthvað ótrúlegt, gera eitthvað skemmtilegt. Stundum verð ég leiður á sjálfum mér, hljóma eins og einhver klisja. Að gera eitthvað sem hefur ekki verið gert nákvæmlega áður og ég tel okkur hafa gert það með öllum okkar fyrirtækjum. Þó í grunninn séu þetta ekki flóknar hugmyndir fatabúð, pizzastaður, hamborgarastaður, skemmtistaður. Þetta eru mjög einfaldar hugmyndir. Eins og ég segi oft það sem einfalt í framkvæmd er oft erfiðast að framkvæma vel”. Reksturinn hjá Auto hefur staðið sig frábærlega en Sindri segir að munurinn á kvöldum liggja fyrst og fremst í sölu flöskuborða eins og þegar ferðamenn, t.d. á vegum Sigga, koma þar og láta flöskurnar flæða.
Hvað er markmiðið?
Siggi spyr Sindra um hver hans markmið eru, hvort það sé eitthvað sem hann vilji ná fram eða hafa lokið. Hann segir einhverja hluti á döfinni og fleiri hluti sem þeir vilji opna innan þessara fyrirtækja. Enn sem komið er hafa þeir mikið endurfjárfest í sínum rekstrum sem allir hafa verið reknir með hagnaði en svo á endanum hlýtur að koma að meiri uppskeru. Sindri segir einnig Yuzu, Flatey og Gaeta vera góðar og skalanlega einingar sem gætu verið með miklu fleiri útibú jafnvel víðsvegar um heiminn. Hver veit nema eftir nokkur ár verði Yuzu á fleiri flugvöllum um heiminn.
Sindri er mikill áhugamaður um sölu og markaðssetningu en segir þó að varan komi alltaf fyrst í öllum þeirra verkefnum. Sú hugsun hefur reynst þeim ótrúlega vel en hvar sér hann sig eftir 5-10 ár? Sindri sér fyrir að minnka við sig í starfi og jafnvel búa erlendis og heillar Ítalía sérstaklega. Getur vel hugsað sér að hafa bækistöð erlendis þar sem hann getur spilað golf í betra veðri en á Íslandi sem hann getur orðið þreyttur á. Þó Sindri vilji ekki tala fyrir sína viðskiptafélaga getur hann ímyndað sér sölu á einhverjum tímapunkti. Nokkuð ljóst er að Sindri hefur komið sér í frábæra stöðu og getur farið ólíkar leiðir þaðan sem verður án nokkurs vafa spennandi að fylgjast með í framtíðinni.